Myndir myndir myndir

Við skötuhjú erum frekar gleymin, get ég sagt ykkur. Ég var búin að biðja hann Gunnar minn í gær að setja inn nokkrar myndir á bloggið svo þið getið nú séð hvað ég er orðin feit af börnum. En af því ég gleymdi að minna hann á það aftur um kvöldið þá gleymdi hann því. Svo það er ekki hægt að segja annað en að við séum soldið gleymin gömul hjú. Annars er bara allt fínt að frétta af okkur. Bumban stækkar bara og stækkar og ég er ekkert ósátt við það ennþá allavega:) Talið við mig aftur eftir mánuð hehe.

Það er skoðun í næstu viku nánar tiltekið 27 júní klukkan 14:00. fyrst er sónar og svo mæðraskoðun. Það verður gaman að sjá hvað þau eru orðin stór blessuð börnin. Ég skil ekki hvernig fólk fer að þegar það er bara sónar einu sinni til tvisvar á meðgöngu, ég á bara erfitt með að bíða þennan mánuð sem líður á milli hjá okkur. Okkur finnst þetta algjört æði og rifnum alltaf úr stolti þegar við sjáum þessu fjörugu börn sína listir sínar fyrir okkur. Ég er loksins farin að finna fyrir hreyfingum eða á ég kannski frekar að segja að ég sé farin að fatta hvenar þetta eru hreyfingar. Samdráttarverkir hafa verið að koma og fara síðustu daga og er bara rólegt í dag miðað við gærdaginn. Þá fann ég fyrir þeim nánast í hvert skipti sem ég stóð upp. Svo auðvitað hringdi Brynja í mömmu sína, sem kann nú soldi á þetta (eða allavega ætti að gera það eftir 8 meðgöngur 🙂 )  og hún sagði mér bara að slaka á sem ég gerði og nú er ég miklu betri. Ekki það að þetta hafi verið neinir verkir þannig séð en herpingur fyrir því.

En nóg í bili ég ætla svo að minna karlinn aftur á að setja inn myndirnar, því hann er nú einu sinni tæknimaðurinn á þessari síðu og ég greinilega ritarinn. 🙂

Komnar 19 vikur

Þá vilja þau á ljósmóðir.is meina að svona eigi hlutirnir að vera.

20. vika = vika 19+0- 6 dagar

Þú
Þú ert nú meira en hálfnuð með meðgönguna þar sem fæstar tvíburameðgöngur ná fullum 40 vikum, vegna þess að flestar tvíburamæður fæða 2-3 vikum fyrir áætlaðan fæðingardag. Þú hefur örugglega þyngst um 7-10 kíló og finnst þú mikil um þig og jafnvel skelfileg tilhugsun að vera þó bara hálfnuð. Legið er nú komið upp fyrir nafla og þrýstir á önnur líffæri í kviðarholinu. Þú finnur hreyfingar mestallan sólarhringinn þegar tvíburarnir sparka til skiptis eða báðir í einu. Ljósmóðirin getur núna auðveldlega heyrt tvo hjartslætti með doptón. Ef þú hefur ekki þegar sagt það við sjálfa þig, þá gerðu það í þessari viku: „Ég er heppnasta kona í heimi, ég á von á tvíburum!“.

Tvíburarnir
Fóstrin eru nú u.þ.b. 16 sm frá höfði niður á rass eða um 22 sm niður á hæl og vega u.þ.b. 350-400 grömm hvort og vaxa hratt. Húðin er enn hrukkótt vegna þess að fitulagið hefur ekki myndast undir henni. Hingað til hafa fóstrin æft stærstu vöðvana með spörkum en nú byrja þau líka á þeim smærri t.d. augunum. Fóstrin vaxa hratt það sem eftir er meðgöngunnar en höfuð þeirra vaxa hægar en þau hafa gert fram að þessu og eru nú um 4,7 sm í þvermál.

Ég finn nú samt engar hreifingar af ráði allavega ekki svo ég viti. Svo finnst mér ég líka ekki vera neitt rosaleg um mig sem er kannski bara fínt þar sem ég hef víst alveg nógan tíma til að blása út. Ef ég get svo borða áfram eins og ég geri núna þá ætti ég ekki að vera í neinum vandræðum með það 🙂

Tvær rauður í einu eggi

Annaðhvort borða ég allt of mikið af eggjum eða þá er þetta einhverskonar sign (merki) til mín, því þrisvar á stuttum tíma hef ég fengið tvær rauður í einu eggi. Eitt um daginn og tvö í dag. Mér þykir þetta merkilegt því ekki er það vanalegt að ég fái svona egg og tel ég því víst að þetta sé merki um það að börnin mín séu pottþétt eineggja. Spáið í því, svona er maður þá látin vita af hlutunum, í gegnum fæðuna. : ) Annars er bara allt gott að frétta af okkur, ég lít reyndar út eins og Rúdólfur með rauða nefið eftir gærdaginn en það var svo gott veður og mikil sól að ég brann pínku á nebbanum : ) en það er bara fyndið. Heilsan er góð, börnin ekkert farin að láta vita neitt af sér en ég finn að ég er farin að vera soldið þreytt á kvöldin en það er bara eðlilegt.

18 Vikur komnar

Já það eru komnar 18 vikur í dag og allt gengur einsog í sögu. Það er komin smá bumba á mína og spenningurinn verður alltaf meiri og meiri þegar þetta fer að verða svona sýnilegt. Þá getur maður strokið mallann sinn og fundið að það er eitthvað þarna inni sem er að stækka. Ég er ekki bara orðin svona feit hehe. Ég byrjaði í meðgöngusundi á mánudaginn og er það bara mjög fínt. Mér fannst soldið fyndið að vera þarna fyrsta daginn í kringum kasóléttar konur sem voru sumar komnar frammyfir og svo kom ég þarna með mín tvö og varla kúlu og hafði ekkert fyrir þessum æfingum, nánast hljóp um í lauginni á meðan hinar kjöguðu þarna í rólegheitunum. En í seinni tímanum í vikunni, núna á miðvikudaginn, þá var þetta aðeins erfiðara. Ég er nebla með svo mikla stækkunarverki ( ef kalla má það) og var öll svo  stíf í kviðnum og með smá verki þannig að ég féll bara vel inn í hópinn þann daginn og mun líklega gera það hér eftir en við sjáum til.